Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Þolinmæði


Maðkur í hrísmjölinu

Þið fróða fólk, segið mér eitt; voru Danir ekki löngu hættir að selja Íslendingum maðkamjöl?
Lenti nefnilega í frekar óskemmtilegri lífsreynslu í hádeginu í dag. Ég var að sjóða hrísmjölsgraut, sá eitthvað skringilegt í pottinum og ákvað að veiða það upp úr. Hélt fyrst að þetta væri grjón á röngum stað og tíma, en annað kom í ljós þegar ég kreisti "það". Ég var samt ekki enn búin að gefa upp vonina að þetta væri á einhver hátt matvæli og ákvað að kíkja í hrísmjölsdallinn. Þegar ég lyfti lokinu fálmaði á móti mér lítil lirfa, ég lokaði og skellti frá mér dollunni, kastaðist upp að vegg og gaf frá mér undarleg hljóð og hreyfði mig skringilega og fékk gæsahúð á tærnar!
Ég hafði semsagt soðið þrjár lirfur, ein var sprelllifandi efst í dollunni og nokkrar komnar í púpu hér og þar í mjölinu. Djöfull var þetta óhuggulegt! En mannskapurinn varð jú að éta, svo makkarónugrautur varð það eftir að þurrvöruskúffan var tekin í gegn. Matarlystin var ekki mikil, og það þarf vart að taka fram hvað makkarónurnar minntu mig á.

En að öðru og skemmtilegra efni. Í dag fórum við í vöfflur til Rannveigar og Danna (og glassúr mmm..) Mikið var það huggulegt, takk fyrir okkur! Þar beið okkar poki frá Gísla og Ann, föt handa Markúsi sem Kári passar ekki lengur í. Takk fyrir það Gísli og Ann!

Ég get svo svarið það, ég get ekki hætt að hugsa um þetta lirfuvesen! Ég á pottþétt eftir að fá martröð í nótt!

Jæja, ég ætla að setja inn nokkrar myndir á Músasíðuna.

Bestu kveðjur frá okkur í Lirfulandi!


Og finna út úr tilgangi lífsins í leiðinni

Já kæru lesendur, nú verðið þið að fylgjast vel með, því kellan er farin að blogga á hverjum degi!

Á mánudaginn fór Kalli í próf, og komst upp í næsta hóp. Það er auðvitað erfiðara, en ekkert sem hann ræður ekki við. Vá ég er svo stolt af honum!

Í síðustu viku fengum við þá hugmynd að ég færi bara líka í dönskuskólann. Ég fór í viðtal í dag, og skólastjórinn spurði: "Þarft þú að læra dönsku? Maður heyrir varla að þú sért frá Íslandi! Hvað ertu búin að búa hér í mörg ár?" Kellan varð náttúrulega svoldið upp með sér, en engu að síður finnst mér ég vera óörugg í málfræði og þegar kemur að því að skrifa. Ég skil léttilega flest allt sem ég heyri, sjónvarpsefni, og það sem ég les í blöðum og þess háttar. En eins og ég segi, langar mig að verða öruggari í skrift og málfræði. Það eru nefnilega ekki allir sem leiðrétta mann þegar maður segir eitthvað vitlaust, og þá gæti maður haldið að maður sé bara í góðum málum.
Ég fer semsagt í skriflegt próf 29.okt og þá fæ ég að vita "hvort skólinn hafi eitthvað handa mér að bjóða" eins og stjórinn sagði. Ef ekki, þá er það bara VUC.

Já þetta er svolítið út og suður hjá mér. Ég fór hingað út með þá ætlun að verða "hjálpari" (social-og sundhedshjælper), svo breyttist það yfir í sjúkraliða, því næst var markmiðið að læra hjúkrunarfræðinginn. Svo datt mér í hug að sérhæfa mig í dönsku og verða þýðandi!  Nú er þetta allt saman einhvernveginn í lausu lofti, en það plagar mig ekki mikið. Ekki eins mikið og það gerði. Mér fannst ég vera undir einhverri pressu að vita þetta allt saman, hvað ég vil verða, hvað ég vil læra, hver ég vil vera. Og helst að finna út úr tilgangi lífsins í leiðinni.
Og svo eru það jú nemalaunin. Þau eru ekki alveg þau hagstæðustu, miðað við að hinn helmingur tekna okkar koma frá Íslandi.
Ég tek þessu bara rólega, ég er ágæt eins og ég er, og þetta kemur ábyggilega allt í ljós án þess að ég þurfi að naga af mér neglurnar og rífa af mér hárið af kvíða.

Læt þetta duga í bili
Ástarkveðjur frá okkur.


Bjartsýni

Bráðum kemur betri tíð (Kvæðakver 1930)

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga,
sæta lánga sumardaga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.

Halldór Laxness

225660153_b68b81a550 

 

 




Bráðum kemur betri tíð (Október 2008)

Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga
sæta lánga skuldlausa daga.

Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi
eftir að hafa verið blánkur, leingi leingi.

Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur,
og fjölskyldan leikur við kvurn sinn fíngur.

Kolbrún Jónsdóttir (með smá aðstoð HKL)


Peningar

Börn fæðast í þennan heim, og jafnvel áður en sjálf fæðingin fer fram er barnið komið með bankabók. Afmælispeningar, fermingapeningar, unglingavinnulaun.

Ég man þegar ég var lítil, þá áttu mamma og pabbi í einhverjum fjárhagserfiðleikum. Ég heyrði þau velta fyrir sér hvað þau ættu að gera í málinu og ég bauðst til að gefa þeim 20 þús krónur sem ég átti inná bankabók. Ég vonaði svo innilega að þetta væri það sem þyrfti til að bjarga þeim úr vandræðunum. Mamma þakkaði pent fyrir, en sagði að þau myndu reyna að finna út úr þessu öðruvísi. Seinna vissi ég að auðæfi mín voru auðvitað aðeins dropi í hafið.
Ég man hvað mér leið illa að geta ekki hjálpað.

Ég hef aldrei getað farið með peninga. Í rauninni ætti ég ekki að vera fjárráða! Nei, það er nú kannski einum of harkalega sagt, en svona þegar upp er staðið, væri ég alveg til í að láta einhvern annan um fjármálin mín (ábyrgðarfyrring?). Frá því ég fékk fyrstu launin mín hef ég ekki getað haft stjórn á þeim. Fyrstu útborgunirnar voru æðislegar. Enda engar skuldir og reikningar að eyða þeim í. Símainneignir, fatnaður og nammi. Jeminn, það var sko lífið.
Mér var bent á að það væri kannski sniðugt að spara svolítið, og eyða ekki svona miklu í vitleysu.
Vitleysu? Iss, mér sem unglingi fannst sko engin vitleysa í því að eyða 110 þús á mánuði í síma, fatnað og sælgæti.
Svo kom að því að ég ætlaði að vera skynsöm og leggja svolítið til hliðar. En það leið aldrei á löngu þar til ég þurfti að taka af sparnaðinum. Hver mánaðamót áttu að vera tækifærið. Nú, 96 mánaðamótum seinna á ég engan varasjóð. Þvert á móti hafa mamma og pabbi, tengdó eða bankinn þurft að binda enda saman flest, ef ekki hver mánaðamót. Það er sárt. Mjög sárt, og aðallega vegna þess að ég veit að það er sjálfri mér að kenna, ég get ekki komið ábyrgðinni yfir á neinn annan.

peningar

Vinna fyrir peningum, eyða peningum, safna peningum, borga peninga, skulda peninga. Peninga peninga peninga peninga.

Mikið væri það dásamlegt að geta borgað í öðrum gjaldmiðli. Prjóni eða föndri eða einhverju slíku.

Jájá, voðalegt væl er þetta, það eru margir sem hafa það verr en ég. Ég hugga mig við það í bili.


Þú getur keypt þér rúm en ekki svefn,
þú getur keypt þér bók en ekki vitneskju,
þú getur keypt þér læknisþjónustu, en ekki heilbrigði.
Peningar geta oft valdið vandræðum og óþarfa þjáningum.
Ég segi ykkur þetta vegna þess að mér þykir vænt um ykkur, og vil ekki að þið þurfið að þjást.
Sendið mér því alla ykkar peninga og ég mun þjást fyrir ykkur!

Bestu kveðjur,
Kolbrún og co.

Þessi færsla var í boði Fullrate, fyrirtæki sem sér mér fyrir interneti, og Syd Energi sem veitir mér rafmagn. Allt gegn greiðslu.


Fréttir af okkur (bæði góðar og ekki góðar)

Ég frétti að móðir mín kær hefði ekki getað sofið eftir að hún las síðustu færslu, svo hér eftir mun ég einungis skrifa um fiðrildi, sólskin og velgengni.
Neee, það gengur ekki, pælingar mínar eru svo margslungnar að ég verð að fá að dreifa þeim á ykkur lesendur.

Það er hér með ákveðið að við komum ekki heim um jólin. Við ætlum frekar að koma þegar efnahagurinn lítur aðeins betur út, þó svo það verði ekki fyrr en í jan eða febrúar. Þá getur maður kannski stoppað aðeins lengur og haft það svoldið kósí. Það er ekkert sniðugt að koma heim í 9 daga, þar af fara 2 í ferðalög milli landa og 1 dagur í ferðalög innanlands. Úff ég fæ bara í magann! Það er margt búið að breytast á þessu ári, við búin að prófa hitt og þetta, ætli maður verði ekki líka að prófa að vera ekki heima um jólin?

kacheek_christmas_baby

 

 

 

 

Og þá að jólamatnum. Hver ykkar ætlar að senda okkur hangikjöt?

Markús er búinn að vera kvefaður og með leiðinlegan hósta síðan í byrjun september. Við fórum með hann til læknis 10 dögum eftir að það byrjaði, og doksi sagði okkur að leyfa þessu að fara af sjálfu sér, það heyrðist fínt í lungunum og allt virtist vera á réttri leið, en sagði okkur að koma aftur ef þetta breyttist. Svo í fyrradag fékk hann 39,7 stiga hita, og þurfti að koma fyrr heim frá dagmömmu því hann lá bara á sænginni sinni og volaði ámáttlega. Kalli fór svo með hann til læknis í gær, og í ljós kom mjög slæm eyrnabólga! Ég er ennþá að átta mig á þessu, því ekkert benti til þess að honum væri illt í eyrunum. En hann er allavega kominn á eitthvað pensilín-sull, má ekki fara út fyrir hússins dyr í 5 daga.

Bíddu nú við, hverjar voru aftur góðu fréttirnar?
Jú, okkur líður vel og elskum ykkur InLove

 

Læt þetta duga í bili, þarf að fara að koma mér í vinnuna.
Þangað til næst, hafið það gott.!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband