Óvirkur alkahólisti á bar

Vinnurútínan mín er þannig að ég vinn mán, þri, frí mið og fim, vinna fös, lau og sun. Svo næstu viku er það öfugt; frí mán, þri, vinna mið og fim, frí fös, lau og sun.
Í vikunni sem leið þurfti ein sem er að vinna með mér að losna við tvær vaktir, við skiptumst á vöktum og það kom út þannig að ég vann fimm daga í röð; mið-sun. Ég hélt kannski að ég yrði alveg búin á því eftir þessar fimm vaktir, en ég var í góðum gír þegar fimmtu vaktinni lauk í gær, fyrir utan hendurnar. Hendurnar á mér eru alveg í rústi, vísifingur á vinstri hönd get ég ekki rétt almennilega úr. Það er sama hvað ég reyni að passa uppá lúkurnar, ég nota nitrile eða vinyl hanska í staðinn fyrir latex, ber á mig krem og hvað þetta nú allt heitir, ekkert virkar, nema þá kannski að leyfa þeim að anda.
Ef ég vil lifa eðlilegu lífi án þess að vera með næstum afmyndaðar hendur af exemi, verð ég að hætta í þessum umönnunar-bransa. Það segir húðsjúkdómalæknirinn allavega.

Þetta er aðallega það sem fær mig til þess að efast um ágæti þess að verða sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur eða eitthvað í þá áttina.
Jú svo er eitt annað sem spilar inní:

Á vaktaskiptum hittumst við kvöldvaktastelpurnar og næturvaktastelpurnar. Það barst í tal að ein okkar er í hjúkrunarfræðinámi. Hún lýsti allskonar verkefnum í náminu, þar á meðal sprautuverkefni. Þau áttu að taka blóð úr sjálfum sér. Hún sagði t.d. "Það er óþolandi þegar æðin hopar, eða hverfur", "já ég veit" segir önnur, "það er best að gera þetta hérna".. Og svo framvegis. Fyrir þeim voru þetta eðlilegar umræður um verkefni í náminu -  fyrir mér var þetta allt annað.

Ég hélt að þetta myndi ekkert á mig hafa, en allt í einu gat ég ekki hlustað meir, skrapp afsíðis og fékk mér sígó. Ég var með dúndrandi hjartslátt. Var þetta fíkn? Hvað var að gerast? Er þetta sprautu og æðatal virkilega að hafa svona áhrif á mig? Hvernig væri þetta þá ef ég kæmist í hjúkrunarfræðina? Myndi ég halda þetta út í kringum sprautur, nálar og lyf?

Auðvitað hef ég hugsað þetta áður, oft og mörgum sinnum. Ég hef alltaf verið fullviss um að þetta myndi ekki hafa áhrif á mig. Annað hefur komið í ljós.

Er það sniðugt fyrir óvirkan alkahólista að vinna á bar?
Er það skynsamlegt fyrir óvirkan fíkil að vinna með sprautur, nálar og lyf?
Þó svo viðkomandi væri í eins góðu jafnvægi og hægt væri að hugsa sér, væri það skynsamlegt?
Væri það áhættunnar virði?

Ég held kannski eitthvað áfram með þennan "pistil" seinna, nú þarf ég að fara að skipta á rúmunum.


P.s: Mamma, nenniru nokkuð að strauja rúmfötin fyrir mig? :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við elskum ykkur "meira en úti er stórt" Þú skilur og veist. Hvíldu þig vel og hættu að strauja! Hlúðu að ykkur með því öllu því sem þú best þekkir elskan mín.

Hjartans kveðjur í blíðu og stríðu

Mamma og pabbi (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 02:26

2 identicon

STRAUJA RÚMFÖT? Missti ég af einhverju, eru jólin komin strax? Hólímólí...

Varðandi alkann á barnum er ég álíka ófróð og fjármálaráðherra vor um summuna af átta og einum... en er þetta með hjúkkur og nálar ekki eins og með skítskeinigöndul og rassgöt, og kvensjúkdómalækninn og píkur? Þetta er bara vinnan?

Gæti átfíkill unnið í sjoppu, getur kynlífsfíkill átt fleshlight :Þ? (Nú var ég ægilega fyndin) Er þetta ekki alltaf meiri spurning um að einstaklingurinn þekki sín takmörk, og höndli sína fíkn, sama hvert umhverfið er?

Farið svo að vinna í danska lottóinu og senda mér nokkrar baunakrónur, þið gerið ykkur væntanlega grein fyrir því að fyrir 1000 DKK fæ ég 20.579 ISK (í augnablikinu, þær verða sennilega orðnar 30.000 í vikulok)!!!! BEEEELUN!

Hrönn (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 17:38

3 Smámynd: Kolbrún Jónsdóttir

Jeminn, þú ert ótrúlega fyndin! Haha!
Við erum búin að taka þátt einu sinni í lottóinu og unnum ekki skít.
Þetta lottó er bara samsæri. SAMSÆRI!!!

Kolbrún Jónsdóttir, 2.10.2008 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband