Það er kominn mars!
10.3.2009 | 10:52
Og lífið er farið að taka á sig "venjulegri" mynd, ef svo má að orði komast.
Ég var nú ekkert alveg að nenna að vakna í morgun, ég var alveg búin að ákveða að fara að sofa þegar ég væri búin að fara með Markús til dagmömmunnar, en það var svo gott að fá líkamann í gang, í staðinn fyrir að liggja bara og hrjóta. Fá sér smá kaffi, taka úr uppþvottavélinni, gefa Markúsi að borða og horfa á smá morgunsjónvarp með honum. Svo löbbuðum við til dagmömmu.
Hér er farið að birta allverulega til, það er alveg orðið bjart klukkan sjö, fuglarnir farnir að syngja meir og meir, vorið farið að láta kræla á sér.
Ég er byrjuð að vinna aftur, alveg frábært. Það var tekið svo vel á móti mér að litla kvíðafiðrildið sem ég hafði í maganum yfir því að koma aftur hvarf alveg.
Við erum búin að breyta svoldið til hérna hjá okkur, fyrir það fyrsta tókum við í gegn alla kassana sem hafa staðið uppí svefnherbergi frá því við fluttum. Þeir hafa alltaf mætt afgangi þar sem við bjuggumst við því að flytja í aðra íbúð á hverri stundu. En nú erum við hætt að spá í því í bili, og tókum þetta í gegn, sameinuðum í kassa og geymum undir rúmi þar sem þeir eyða ekki sýnilegu plássi. Færðum tölvuna upp og annan sófann, þann tveggja sæta. Svo var ætlunin að hafa nýja sjónvarpið uppi, en það lítur út fyrir að vera of langt í gervihnattadiskinn þaðan. En við erum ekki búin að gefast upp á þeirri hugmynd, finnum eitthvað út úr þessu.
Ég og Kalli erum bæði byrjuð á reykingalyfi og nú styttist í fyrsta reyklausa daginn. Við finnum bæði mikinn mun á reykingaþörfinni og hlakkar til að losna algjörlega við þetta ógeð. Svo ég tali nú ekki um sparnaðinn sem fylgir því að hætta. Það líður lengri og lengri tími á milli sígaretta og það er varla að við höfum fyrir því. Allt í einu föttum við að við erum ekki búin að reykja í 2 tíma! Ég mæli svo sannarlega með þessu lyfi, Champix, og mamma, það er aldrei of seint að hætta! (Nema þegar maður er dauður af lungnakrabba að sjálfsögðu)
Það styttist í tveggja ára afmælið hans Markúsar, 2 dagar! Er búin að ákveða að baka skúffuköku og kannski bjóða nokkrum vinum ættmennum á svæðinu í heimsókn. Rannveig og co, Gísli og co, Arnheiður og Svava, ykkur er hér með boðið í smá kaffi einhverntímann í vikunni! :)
Kreppa, kreppa, kreppa. Krise, krise, krise. Þetta er yfirgnæfandi í eyrunum á manni þessa mánuðina. Það örlar jafnvel fyrir því að maður sé kominn með nóg af þessu tali. En það verður ekki um það komist að þetta er að hafa mikil og stór áhrif allt í kring um mann. Get ekki sagt að þetta sé að hafa stórkostleg áhrif á okkur, jú bæturnar hans Kalla rýrna allverulega útaf genginu, en við höfum það betra en margir aðrir. Ég hef þá allavega vinnu, og er mjög ánægð með hana, sérstaklega þegar maður heyrir um fjöldauppsagnir hér og þar.
Krepputal og fjöldauppsagnir stoppuðu okkur þó ekki í að festa kaup á sjónvarpi. Fyrsta sjónvarpinu okkar! Höfum verið með hitt og þetta í láni í gegn um þessi rúm 3 ár okkar saman, og það sem við höfum verið með í láni síðan við fluttum út er gamalt og það koma stundum skrýtin hljóð úr því og smá brunalykt.. Eitthvað segir mér, verandi dóttir rafvirkja, að það sé ekki allt í lagi (eða bara þokkalega skynsöm). Keyptum okkur 32" Sony LCD, á 4800 kr. Það eyðir talsvert minna rafmagni en gamla sjónvarpið, svo það verður ekki lengi að borga sig. Við erum farin að spá meira í þessum rafmagns-, sparnaðar,- og umhverfismálum heldur en við gerðum á Íslandi. Hér í íbúðinni er undantekning að nota venjulega peru í ljós og lampa, notum sparnaðarperur í mest allt. Ljósið getur samt verið smá tíma að ná fullum styrk, en eftir smá stund er lýsingin orðin sú sama og með venjulegri peru, hún kostar meira, en endist mikið mikið lengur og eyðir minna rafmagni.
Við gerðum merkileg kaup í byrjun mánaðarins. Mjög merkileg og minnisstæð kaup, nefnilega önnur ónotaða mublan okkar eftir að við fluttum út. Fyrsta ónotaða mublan var svefnsófinn, en nú var það kommóða. Og hana settum við alveg sjálf saman, er það ekki ótrúlegt? Enginn pabbi eða afi til að hjálpa okkur. Merkilegt hvað gerist þegar maður flýgur svona langt úr hreiðrinu!
Þó svo ég sé ánægð með að hafa vinnu yfir höfuð, þá kemst ég ekki hjá því að hugsa um hendurnar á mér. Ég fór í ofnæmispróf hjá húðlækni í febrúar, og niðurstaðan sýndi að ég er ekki með ofnæmi fyrir latex, vinyl né nitril. Það er auðvitað ákveðinn léttir, að hanskarnir séu ekki orsök exemsins, en það breytir því ekki að þessi efni gera viðkvæma húð enn verri. Ég ákvað því að sækja um starf hjá Subway í Sønderborg. Hef unnið á Subway á Íslandi og hef því smá reynslu sem hefur greinilega vakið áhuga þeirra, því rétt áðan var verið að hringja og bjóða mér í viðtal á morgun.
Er búin að hugsa þetta lengi, að finna mér aðra vinnu, og hef verið ansi pirruð að finna ekkert. En nú er þetta komið í myndina, og hvað gerist þá? Þá fer ég að efast um að þetta sé rétt, að skipta um vinnu, hvort ég hafi það ekki bara ágætt á núverandi vinnustað o.s.frv. En ég veit samt að ég á mér ekki neinn feril framundan í núverandi fagi, og er búin að ákveða fyrir löngu að taka ekki neina menntun í því. Þetta kemur allt í ljós, ekkert stress!
Læt þetta duga í bili, enda þetta á nokkrum myndum.
Markús Eðvarð, Finnur og Kári
Greinilega greindur maður þarna á ferð!
Athugasemdir
Frábær færsla hjá þér að vanda, elskan mín. Hlakka mikið til að heyra hvernig viðtalið tókst til.
Myndirnar af músinni æðislegar og gott að sjá að hann getur notað "gummistøvlerne".
Sjáumst vonandi á morgun -er enn fullkomlega andlaus varðandi gjöf fyrir guttaling.
Knús úr borginni.
Magga móða (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.