Peningar
6.10.2008 | 08:33
Börn fæðast í þennan heim, og jafnvel áður en sjálf fæðingin fer fram er barnið komið með bankabók. Afmælispeningar, fermingapeningar, unglingavinnulaun.
Ég man þegar ég var lítil, þá áttu mamma og pabbi í einhverjum fjárhagserfiðleikum. Ég heyrði þau velta fyrir sér hvað þau ættu að gera í málinu og ég bauðst til að gefa þeim 20 þús krónur sem ég átti inná bankabók. Ég vonaði svo innilega að þetta væri það sem þyrfti til að bjarga þeim úr vandræðunum. Mamma þakkaði pent fyrir, en sagði að þau myndu reyna að finna út úr þessu öðruvísi. Seinna vissi ég að auðæfi mín voru auðvitað aðeins dropi í hafið.
Ég man hvað mér leið illa að geta ekki hjálpað.
Ég hef aldrei getað farið með peninga. Í rauninni ætti ég ekki að vera fjárráða! Nei, það er nú kannski einum of harkalega sagt, en svona þegar upp er staðið, væri ég alveg til í að láta einhvern annan um fjármálin mín (ábyrgðarfyrring?). Frá því ég fékk fyrstu launin mín hef ég ekki getað haft stjórn á þeim. Fyrstu útborgunirnar voru æðislegar. Enda engar skuldir og reikningar að eyða þeim í. Símainneignir, fatnaður og nammi. Jeminn, það var sko lífið.
Mér var bent á að það væri kannski sniðugt að spara svolítið, og eyða ekki svona miklu í vitleysu.
Vitleysu? Iss, mér sem unglingi fannst sko engin vitleysa í því að eyða 110 þús á mánuði í síma, fatnað og sælgæti.
Svo kom að því að ég ætlaði að vera skynsöm og leggja svolítið til hliðar. En það leið aldrei á löngu þar til ég þurfti að taka af sparnaðinum. Hver mánaðamót áttu að vera tækifærið. Nú, 96 mánaðamótum seinna á ég engan varasjóð. Þvert á móti hafa mamma og pabbi, tengdó eða bankinn þurft að binda enda saman flest, ef ekki hver mánaðamót. Það er sárt. Mjög sárt, og aðallega vegna þess að ég veit að það er sjálfri mér að kenna, ég get ekki komið ábyrgðinni yfir á neinn annan.
Vinna fyrir peningum, eyða peningum, safna peningum, borga peninga, skulda peninga. Peninga peninga peninga peninga.
Mikið væri það dásamlegt að geta borgað í öðrum gjaldmiðli. Prjóni eða föndri eða einhverju slíku.
Jájá, voðalegt væl er þetta, það eru margir sem hafa það verr en ég. Ég hugga mig við það í bili.
Þú getur keypt þér rúm en ekki svefn,
þú getur keypt þér bók en ekki vitneskju,
þú getur keypt þér læknisþjónustu, en ekki heilbrigði.
Peningar geta oft valdið vandræðum og óþarfa þjáningum.
Ég segi ykkur þetta vegna þess að mér þykir vænt um ykkur, og vil ekki að þið þurfið að þjást.
Sendið mér því alla ykkar peninga og ég mun þjást fyrir ykkur!
Bestu kveðjur,
Kolbrún og co.
Þessi færsla var í boði Fullrate, fyrirtæki sem sér mér fyrir interneti, og Syd Energi sem veitir mér rafmagn. Allt gegn greiðslu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.