Hvað er meira viðeigandi en "JÆJA!"
2.9.2008 | 07:44
Já.. Það er sólríkur þriðjudagsmorgunn, Markús kominn til dagmömmu og Kalli í skólanum. Mikið er það skrítið að vera bara ein heima!
Og mikið er það dásamlegt að vera komin með almennilegt internet! Ahh.. Nú er ég með íslenskt útvarp í gangi, alveg hreint yndislegt!
En eins og áður hefur komið fram er Markús byrjaður hjá dagmömmu, byrjaði fyrst í gærmorgun. Það gekk rosalega vel, sagði einu sinni "mamma" og hélt svo áfram að leika sér. Hann varð samt voðalega ánægður þegar mamman kom að sækja hann.
Hann var svo búinn á því þegar ég kom að sækja hann kl 11, að kl 11:30 var hann kominn upp í rúm með Brúnó sinn og pelann.
Í gærkvöldi fórum við á fund og fengum stelpu sem ég er að vinna með til að passa. Við vorum hrædd um að þetta yrði alveg hræðilegt fyrir hann, og hann myndi bara alveg fríka út! En viti menn, við sögðum bæbæ við hann og hann hoppaði bara kátur og hress í fangið á píunni! Hann grét ekki eitt tár á meðan við vorum í burtu, spjallaði og spjallaði, fór svo að sofa um kl 8! Við erum ennþá að átta okkur á þessu!
Áðan fór ég með Músina til dagmömmu og var hjá þeim í tæpan klukkutíma. Ég kvaddi hann, en hann var of upptekinn við að klappa kisu til að taka almennilega eftir því. Svo þegar ég var komin inn í forstofu, var að renna upp jakkanum heyrði ég voðalegt væl, þá fattaði hann að ég var að meina þetta. Hann var ekki beint ánægður og grét eins og ég væri að fara að eilífu! Litla greyið!
Akkúrat þá komu inn úr dyrunum Martin og mamma hans, Martin er fæddur í mars eins og Markús, og þá léttist lundin aðeins. Svo voru guttarnir klæddir í skó og úlpu og út í garð! Ég læddist í burtu á meðan Markús mokaði í sandkassanum. Svo sæki ég hann á eftir, vona að þetta hafi gengið vel!
Hann er svo duglegur kallinn, hann leikur sér mest með matarleikföng.. Bolla og glös og ausur og gaffla og diska og potta og pönnur! Hrærir í bolla og gefur kisu smá smakk. Svo hrærir hann aðeins í pottinum og gefur Bangsímon. Fær sér svo sopa sjálfur!
Kalli er í skólanum á mánu, þriðju og föstudögum. Hann var búinn að vera svoldið stressaður yfir því að geta ekki neitt og vera alveg útá þekju. En það hefur heldur betur breyst eftir fyrsta daginn sem var í gær. Í bekknum hans er nefnilega kona frá Tyrklandi, sem talar hvorki ensku né neitt annað sem hægt er að tengja við! En þetta byrjar bara vel og lítur vel út.
Annað í fréttum, ég er að dunda við að gera nýja síðu, er svona að sjá hvort það sé eitthvað varið í það kerfi, er búin að setja inn nokkrar myndir og 2 vídjó. Endilega kíkið á það, www.kakoma.dk
Ég ætla að fara að skella í eina vél og taka svoldið til.
Bestu kveðjur frá okkur í Augustenborg!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.